Slys gera boð á undan sér

ÞEIR eru vandfundnir sem mótmæla því að öryggismál séu mikilvæg. Allir eru sammála um að slys á fólki og tjón á eignum sé eitthvað sem á ekki að eiga sér stað. Af hverju umberum við þá öll þessi atvik sem leiða til slysa á fólki og tjóna á eignum í kringum okkur?

Margir telja að slysin geri ekki boð á undan sér. Það er algengur misskilningur að slys séu eitthvað sem er óumflýjanlegt og við höfum lítil eða engin áhrif á hvort, eða hvar þau verða. Þetta sé aðeins spurning um hversu heppin eða óheppin við erum. Þetta viðhorf endurspeglar uppgjöf; þ.e. að enginn sé þess umkominn að sleppa við slysin; þau séu nánast eins og hvert annað náttúrulögmál. Margir eru á annarri skoðun og hafa einsett sér að fækka slysum í sínu umhverfi þannig að þeim verði að lokum útrýmt. Þeir telja að það megi koma í veg fyrir öll slys og heppni eða óheppni hafi lítið eða ekkert með það að gera. Ef hvert einstakt atvik er skoðað kemur í ljós að einhver ein orsök, eða jafnvel fleiri en ein valda því. Þessar orsakir eru alltaf mannlegs eðlis, þ.e. einhver eða einhverjir gera mistök sem leiða til slyssins.

Tökum dæmi: Þegar glæsilegasta skemmtiferðaskip þess tíma, Titanic, sigldi í sína fyrstu og síðustu ferð árið 1912 í blíðskaparveðri á nærri hámarkshraða, sigldi það á borgarísjaka með þeim afleiðingum að löng rifa kom á byrðinginn neðan sjólínu. Skipið fylltist af sjó og sökk á tæpum 3 tímum. Það átti reyndar ekki að geta gerst því Titanic "gat ekki sokkið" og var hannað og byggt með vatnsþéttum skilrúmum. Skipið átti því að þola að göt kæmu á byrðinginn. Mistökin við hönnun þessara skilrúma voru að þau náðu ekki til lofts og því flæddi sjórinn upp fyrir þau.

Þrátt fyrir aðvaranir um að líkur á væru borgarísjökum á siglingaleið Titanic gerði skipstjórinn þau mistök að láta undan þrýstingi eigenda skipsins um að sigla á hámarkshraða til þess að eiga möguleika á því að setja nýtt hraðamet yfir Atlantshafið.

Eftir að Titanic hafði rekist á ísjakann og hafist var handa við að koma fólki fyrir í björgunarbátum kom í ljós að þeir voru hvergi nægilega margir til að rúma alla farþega skipsins. Rýming hófst ekki fyrr en einni klukkustund eftir áreksturinn og þar fyrir utan gekk illa að fá farþega til að fara um borð í bátana, enda töldu þeir sig vera um borð í skipi sem ekki gat sokkið. Hvorki áhöfn né farþegar höfðu fengið þjálfun í rýmingu skipsins. Þarna voru gerð mistök í hönnun skipsins, markaðssetningu þess sem ósökkvanlegs og þjálfun áhafnar í rýmingu þess.

Skipið Californian var nægilega nálægt til þess að áhafnarmeðlimir þess sáu neyðarblys sem skotið var frá Titanic en skipstjóri Californian gerði þau mistök að halda að einungis væri verið að skjóta upp flugeldum farþegum til skemmtunar. Ekkert annað skip var nægilega nálægt til að geta komið farþegum og áhöfn Titanic tímanlega til bjargar. Afleiðingin var sú að þeir sem lentu í sjónum áttu litla möguleika á að lifa ískalda veru sína þar af.

Þetta, ásamt fjölmörgum öðrum áhrifaþáttum varð til þess að 1.496 manns létu lífið. Í öllu falli var um að ræða áhrifaþætti sem rekja má til mannlegra mistaka sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir. Því hafði það ekkert með óheppni að gera að allt þetta fólk fórst í þessum hörmulega atburði.

Það sama má segja um öll atvik sem leiða til slysa á fólki og tjóna á eignum. Það er alltaf eitthvað sem einhver gerir eða gerir ekki, viljandi eða óviljandi sem er grunnorsökin. Ef við erum sammála um þetta og erum sannfærð um að við getum gert eitthvað í málunum þá eigum við góða möguleika á að fækka og að lokum útrýma slysum og tjónum, hvort sem það er í umferðinni, á heimilinu eða á vinnustaðnum. Tökum því eftir fyrirboðunum, sem oft eru augljósir, og bregðumst strax við – því reynslan sýnir að slysin gera alltaf boð á undan sér.

Höfundur er forvarnafulltrúi hjá VÍS


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: XXL Cranium

Ekki spurning. Það hefur oft loðað við íslendinga að þeir séu forlagatrúar. Þeir trúi því að það sem yfir því dynur sé óumflýjanlegt. Þetta eru eflaust leifar af mörghundruð ára ójafnri sambúð með náttúrunni. En víst er að með því að spenna beltin, stilla hraðanum í hóf, setja rafhlöðurnar í reykskynjarann, og leyfa börnum sínum ekki að leika sér með eldspýtur er hægt að fækka hörmungum.

XXL Cranium, 11.4.2007 kl. 21:44

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Um bloggið

Reynir Guðjónsson

Höfundur

Reynir Guðjónsson
Reynir Guðjónsson
Höfundur er forvarnafulltrúi hjá VÍS
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband