Úlfur, úlfur

Flestum þykir sjálfsagt mál að farið sé að lögum og reglum þegar talað er um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum. Til eru reglur um að hreinlætisaðstæður skulu vera af ákveðnu tagi, loftræsting skal uppfylla lágmarkskröfur, stigar skulu vera með handriðum til þess að fólk fari sér ekki að voða við að ganga þá upp eða niður og lyftur skulu búnar öllum besta öryggisbúnaði sem hugsast getur. Atvinnuhúsnæði verður auk þess að vera skipt niður í brunahólf, tvær leiðir skulu vera úr hverju rými og þannig mætti lengi telja.

Eldur getur náð sér á strik á undraskömmum tíma þannig að úr verður mikið bál sem erfitt er að hemja. Vissulega geta góðar brunavarnir dregið úr hraða brunans og takmarkað útbreiðslu eldsins, en ef enginn verður hans var, nær hann sér oftast vel á strik.  Ef þetta gerist að nóttu til þá eru það oft árvökulir vegfarendur eða íbúar í nærliggjandi húsum sem tilkynna slökkviliði um eldinn, en oft er það löngu eftir að hann kviknar.  Ef það kviknar í að degi til þegar starfsemi er í húsinu verða starfsmenn eldsins varir fyrr eða síðar. Ef það gerist fyrr, þá ætti starfsfólk að hafa nægan tíma til að koma sér úr hættu og undir ferskt loft. Ef það gerist hins vegar síðar þá er mikil hætta á að einhver lokist inni í brennandi húsinu.  Reykur og hiti berst afar fljótt eftir göngum og smýgur inn í hvert skúmaskot sem ekki eru varin með eldvarnarhurðum. Fólk getur á skömmum tíma lent í þeirri aðstöðu að eiga enga leið út úr byggingunni.

Brunaviðvörunarkerfi eru til þess hönnuð að gera viðvart um að eldur sé laus. Það er þeirra aðal tilgangur.  Þau geta sagt til um það í hvaða álmu hússins eða jafnvel í hvaða herbergi eldur logar. Þau eru í mörgum tilfellum beintengd við öryggisfyrirtæki sem eiga að tilkynna slökkviliði og lögreglu tafarlaust um útkallið. Ef kerfið fer í gang að degi til er ætlunin sú að starfsfólk bregðist strax við og yfirgefi húsið fljótt og vel, þá leið sem nærtækust er og greiðfærust hverju sinni.  Þetta hljómar skynsamlega og því verja margir töluverðu fjármagni til þess að láta setja upp slík viðvörunarkerfi í sínum fyrirtækjum. Menn láta hanna kerfi sem henta húsnæðinu og starfseminni, kerfið er keypt og sett upp og í mörgum tilfellum er gerður samningur við öryggisfyrirtæki um beintengingu þannig að boðin um eld berist tafalaust. Allir eru ánægðir og umtalsvert fjármagn hefur skipt um eigendur. Í mörgum tilfellum er þetta allt gott og blessað. En í öðrum er ekki laust við að fólki finnist nýja viðvörunarkerfið haga sér undarlega. Kerfið fer í gang í tíma og ótíma. Það má ekki rista brauð í eldhúsinu þá hringja bjöllur um allt hús.  Iðnaðarmenn sem í sakleysi sínu eru að skipta um gólfdúk og nota til þess hitabyssu vita ekki fyrr en yfir þeim standa slökkviliðsmenn með slöngur á lofti. Menn spyrja sig hvernig á þessu standi en hafa engin svör og gera bara ráð fyrir að þetta eigi að vera svona. Iðnaðarmennirnir læra að vísu fljótt að það er betra að taka reykskynjarann úr sambandi í herberginu sem þeir eru að vinna í hverju sinni, þeir geta hins vegar gleymt að gera skynjarann virkann aftur þegar þeir hafa lokið verki.   Starfsfólkið reynir að brenna ristaða brauðið örlítið minna í von um að árans viðvörunarkerfið taki ekki eftir neinu. 

Þegar kerfið hefur kallað „úlfur úlfur“ nokkrum sinnum þá hættir fólk að taka mark á því, situr sem fastast og heldur áfram sínum störfum. Oft er húsvörðurinn eða einhver annar snöggur til að slökkva á bjöllunum til þess að þær trufli fólkið sem minnst við vinnu sína. Hann endurstillir svo kerfið og drífur sig í að hringja í Slökkviliðið og tilkynnir að þetta sé örugglega ekki neitt alvarlegt. Slökkviliðið verður samt að koma á staðinn til að fullvissa sig um að ekki sé hætta á ferðum. Þá er búið að endurstilla kerfið og engin leið að vita hvaðan boðin komu og þurfa því slökkviliðsmennirnir að leita um allt húsið til að fullvissa sig um að eingin eldur leynist þar. 

Þó að viðvörunarkerfið hafi verið hannað með húsnæðið í huga þá eru aðstæður og starfsemi oft eitthvað frábrugðnar því sem hönnuðurinn gerði ráð fyrir. Lausnin getur verið að færa reykskynjara fjær eldhúsinu, færa tiltekna starfsemi til í húsinu, skipta um tegund skynjara.  Auk þess má nota gátlista þegar kerfið er tekið úr sambandi til þess að tryggja að það fari í samband á ný í hvert sinn er  iðnaðarmenn hafa lokið sínu verki o.s.frv.  Kostnaður af því verður aldrei nema brot af kostnaðinum við að kaupa kerfið og setja það upp.  Það má færa fyrir því rök að „úlfur úlfur“ viðvörunarkerfi er verra en ekkert.  Því eiga stjórnendur fyrirtækja að nota fyrstu dagana og vikurnar eftir að viðvörunarkerfi er komið upp til að aðlaga kerfið að húsinu og starfseminni og öfugt, þá eru þeir með virkt og gott viðvörunarkerfi í sínu fyrirtæki og hafa náð markmiðinu um að tryggja öryggi sinna starfsmanna.


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórður Steinn Guðmunds

Þessi athugasemd er við greinina að neðan. Gott og vel það er hægt að passa sjálfan sig og gera allt rétt. Keyra á 90 km hraða út á þjóðvegi og vera 100% öruggur en þú ert samt í hættu, það eru aðrir í umferðinni og þeir geta verið í ýmsum ástöndum, fikniefnaneysla og annað sem er algeingt í dag, bíll á biðskyldu svínar fyir þig og slysið er óumflýjanlegt, það má margt betur fara og hægt er að koma í veg fyrir margt en það eru alltaf hættur allstaðar. Og nei þetta er ekki uppgjör einföld staðreynd sem allir vita.

Þórður Steinn Guðmunds, 23.4.2007 kl. 12:59

2 Smámynd: Reynir Guðjónsson

Takk fyrir góða athugasemd Steinn.  Það er rétt hjá þér að við getum passað okkur sjálf og gert hvað við getum til að minnka líkur á að við lendum í slysi eða völdum tjóni.  Það dugar að sjálfsögðu ekki til þess að við séum 100% örugg.  Við erum með öðru fólki í starfi og leik og ef þetta fólk gerir mistök þá getur það valdið tjóni eða slysi á okkur.  Það er þá sá aðilli sem hefði getað komið í veg fyrir atvikið.  Það er ekki nærri alltaf sá sem verður fyrir tjóninu sem veldur því, það breytir ekki því að einhver gerði mistök sem leiddu til þess.

Reynir Guðjónsson, 23.4.2007 kl. 14:04

3 Smámynd: Jóhanna Fríða Dalkvist

Þórður Steinn, þú þyrftir að prófa að vinna í álverinu í Straumsvík til að skilja um hvað er verið að tala, þar eru allir með mikla öryggisvitund og taka hana með sér heim margir hverjir.

Jóhanna Fríða Dalkvist, 23.4.2007 kl. 18:34

4 Smámynd: Helgi Þór Guðmundsson

Sæll Reynir og takk fyrir síðast. Það er afar ánægjulegt að sjá þig bætast við í bloggheima enda fróðleiksbrunnur sem hefur nóg að deila. Það er gaman að lesa pistlana þína enda hefur þú ekki langt að sækja áhugann í þessi málefni. Ég er einmitt að vinna með einu svona úlfur úlfur kerfi og það er alltaf jafn áhugavert að fylgjast með vel yfir 100 manns heyra viðvörunarbjöllur hringja án þess að einn einasti fari út fyrir hússins dyr og hvað þá frekar að hætta að vinna. Við fengum nýlega til okkar brunaliðsmann sem fræddi okkur um eðli bruna og útskýrði hvernig hann breyðist út. Þar að auki erum við þessa dagana að fá kennslu í notkun slökkvitækja og fróðleik um meðhöndlun þeirra. Þetta er áhugavert umræðuefni sem mætti ræða reglulega og víðar í þjóðfélaginu.

Ég bið að heilsa gömlum vinum og vandamönnum úr DC

Helgi Þór Guðmundsson, 24.4.2007 kl. 10:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Reynir Guðjónsson

Höfundur

Reynir Guðjónsson
Reynir Guðjónsson
Höfundur er forvarnafulltrúi hjá VÍS
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 145

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband