20.4.2007 | 15:25
Úlfur, úlfur
Flestum þykir sjálfsagt mál að farið sé að lögum og reglum þegar talað er um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum. Til eru reglur um að hreinlætisaðstæður skulu vera af ákveðnu tagi, loftræsting skal uppfylla lágmarkskröfur, stigar skulu vera með handriðum til þess að fólk fari sér ekki að voða við að ganga þá upp eða niður og lyftur skulu búnar öllum besta öryggisbúnaði sem hugsast getur. Atvinnuhúsnæði verður auk þess að vera skipt niður í brunahólf, tvær leiðir skulu vera úr hverju rými og þannig mætti lengi telja.
Eldur getur náð sér á strik á undraskömmum tíma þannig að úr verður mikið bál sem erfitt er að hemja. Vissulega geta góðar brunavarnir dregið úr hraða brunans og takmarkað útbreiðslu eldsins, en ef enginn verður hans var, nær hann sér oftast vel á strik. Ef þetta gerist að nóttu til þá eru það oft árvökulir vegfarendur eða íbúar í nærliggjandi húsum sem tilkynna slökkviliði um eldinn, en oft er það löngu eftir að hann kviknar. Ef það kviknar í að degi til þegar starfsemi er í húsinu verða starfsmenn eldsins varir fyrr eða síðar. Ef það gerist fyrr, þá ætti starfsfólk að hafa nægan tíma til að koma sér úr hættu og undir ferskt loft. Ef það gerist hins vegar síðar þá er mikil hætta á að einhver lokist inni í brennandi húsinu. Reykur og hiti berst afar fljótt eftir göngum og smýgur inn í hvert skúmaskot sem ekki eru varin með eldvarnarhurðum. Fólk getur á skömmum tíma lent í þeirri aðstöðu að eiga enga leið út úr byggingunni.
Brunaviðvörunarkerfi eru til þess hönnuð að gera viðvart um að eldur sé laus. Það er þeirra aðal tilgangur. Þau geta sagt til um það í hvaða álmu hússins eða jafnvel í hvaða herbergi eldur logar. Þau eru í mörgum tilfellum beintengd við öryggisfyrirtæki sem eiga að tilkynna slökkviliði og lögreglu tafarlaust um útkallið. Ef kerfið fer í gang að degi til er ætlunin sú að starfsfólk bregðist strax við og yfirgefi húsið fljótt og vel, þá leið sem nærtækust er og greiðfærust hverju sinni. Þetta hljómar skynsamlega og því verja margir töluverðu fjármagni til þess að láta setja upp slík viðvörunarkerfi í sínum fyrirtækjum. Menn láta hanna kerfi sem henta húsnæðinu og starfseminni, kerfið er keypt og sett upp og í mörgum tilfellum er gerður samningur við öryggisfyrirtæki um beintengingu þannig að boðin um eld berist tafalaust. Allir eru ánægðir og umtalsvert fjármagn hefur skipt um eigendur. Í mörgum tilfellum er þetta allt gott og blessað. En í öðrum er ekki laust við að fólki finnist nýja viðvörunarkerfið haga sér undarlega. Kerfið fer í gang í tíma og ótíma. Það má ekki rista brauð í eldhúsinu þá hringja bjöllur um allt hús. Iðnaðarmenn sem í sakleysi sínu eru að skipta um gólfdúk og nota til þess hitabyssu vita ekki fyrr en yfir þeim standa slökkviliðsmenn með slöngur á lofti. Menn spyrja sig hvernig á þessu standi en hafa engin svör og gera bara ráð fyrir að þetta eigi að vera svona. Iðnaðarmennirnir læra að vísu fljótt að það er betra að taka reykskynjarann úr sambandi í herberginu sem þeir eru að vinna í hverju sinni, þeir geta hins vegar gleymt að gera skynjarann virkann aftur þegar þeir hafa lokið verki. Starfsfólkið reynir að brenna ristaða brauðið örlítið minna í von um að árans viðvörunarkerfið taki ekki eftir neinu.Þegar kerfið hefur kallað úlfur úlfur nokkrum sinnum þá hættir fólk að taka mark á því, situr sem fastast og heldur áfram sínum störfum. Oft er húsvörðurinn eða einhver annar snöggur til að slökkva á bjöllunum til þess að þær trufli fólkið sem minnst við vinnu sína. Hann endurstillir svo kerfið og drífur sig í að hringja í Slökkviliðið og tilkynnir að þetta sé örugglega ekki neitt alvarlegt. Slökkviliðið verður samt að koma á staðinn til að fullvissa sig um að ekki sé hætta á ferðum. Þá er búið að endurstilla kerfið og engin leið að vita hvaðan boðin komu og þurfa því slökkviliðsmennirnir að leita um allt húsið til að fullvissa sig um að eingin eldur leynist þar.
Þó að viðvörunarkerfið hafi verið hannað með húsnæðið í huga þá eru aðstæður og starfsemi oft eitthvað frábrugðnar því sem hönnuðurinn gerði ráð fyrir. Lausnin getur verið að færa reykskynjara fjær eldhúsinu, færa tiltekna starfsemi til í húsinu, skipta um tegund skynjara. Auk þess má nota gátlista þegar kerfið er tekið úr sambandi til þess að tryggja að það fari í samband á ný í hvert sinn er iðnaðarmenn hafa lokið sínu verki o.s.frv. Kostnaður af því verður aldrei nema brot af kostnaðinum við að kaupa kerfið og setja það upp. Það má færa fyrir því rök að úlfur úlfur viðvörunarkerfi er verra en ekkert. Því eiga stjórnendur fyrirtækja að nota fyrstu dagana og vikurnar eftir að viðvörunarkerfi er komið upp til að aðlaga kerfið að húsinu og starfseminni og öfugt, þá eru þeir með virkt og gott viðvörunarkerfi í sínu fyrirtæki og hafa náð markmiðinu um að tryggja öryggi sinna starfsmanna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Margir telja að slysin geri ekki boð á undan sér. Það er algengur misskilningur að slys séu eitthvað sem er óumflýjanlegt og við höfum lítil eða engin áhrif á hvort, eða hvar þau verða. Þetta sé aðeins spurning um hversu heppin eða óheppin við erum. Þetta viðhorf endurspeglar uppgjöf; þ.e. að enginn sé þess umkominn að sleppa við slysin; þau séu nánast eins og hvert annað náttúrulögmál. Margir eru á annarri skoðun og hafa einsett sér að fækka slysum í sínu umhverfi þannig að þeim verði að lokum útrýmt. Þeir telja að það megi koma í veg fyrir öll slys og heppni eða óheppni hafi lítið eða ekkert með það að gera. Ef hvert einstakt atvik er skoðað kemur í ljós að einhver ein orsök, eða jafnvel fleiri en ein valda því. Þessar orsakir eru alltaf mannlegs eðlis, þ.e. einhver eða einhverjir gera mistök sem leiða til slyssins.
Tökum dæmi: Þegar glæsilegasta skemmtiferðaskip þess tíma, Titanic, sigldi í sína fyrstu og síðustu ferð árið 1912 í blíðskaparveðri á nærri hámarkshraða, sigldi það á borgarísjaka með þeim afleiðingum að löng rifa kom á byrðinginn neðan sjólínu. Skipið fylltist af sjó og sökk á tæpum 3 tímum. Það átti reyndar ekki að geta gerst því Titanic "gat ekki sokkið" og var hannað og byggt með vatnsþéttum skilrúmum. Skipið átti því að þola að göt kæmu á byrðinginn. Mistökin við hönnun þessara skilrúma voru að þau náðu ekki til lofts og því flæddi sjórinn upp fyrir þau.
Þrátt fyrir aðvaranir um að líkur á væru borgarísjökum á siglingaleið Titanic gerði skipstjórinn þau mistök að láta undan þrýstingi eigenda skipsins um að sigla á hámarkshraða til þess að eiga möguleika á því að setja nýtt hraðamet yfir Atlantshafið.
Eftir að Titanic hafði rekist á ísjakann og hafist var handa við að koma fólki fyrir í björgunarbátum kom í ljós að þeir voru hvergi nægilega margir til að rúma alla farþega skipsins. Rýming hófst ekki fyrr en einni klukkustund eftir áreksturinn og þar fyrir utan gekk illa að fá farþega til að fara um borð í bátana, enda töldu þeir sig vera um borð í skipi sem ekki gat sokkið. Hvorki áhöfn né farþegar höfðu fengið þjálfun í rýmingu skipsins. Þarna voru gerð mistök í hönnun skipsins, markaðssetningu þess sem ósökkvanlegs og þjálfun áhafnar í rýmingu þess.
Skipið Californian var nægilega nálægt til þess að áhafnarmeðlimir þess sáu neyðarblys sem skotið var frá Titanic en skipstjóri Californian gerði þau mistök að halda að einungis væri verið að skjóta upp flugeldum farþegum til skemmtunar. Ekkert annað skip var nægilega nálægt til að geta komið farþegum og áhöfn Titanic tímanlega til bjargar. Afleiðingin var sú að þeir sem lentu í sjónum áttu litla möguleika á að lifa ískalda veru sína þar af.
Þetta, ásamt fjölmörgum öðrum áhrifaþáttum varð til þess að 1.496 manns létu lífið. Í öllu falli var um að ræða áhrifaþætti sem rekja má til mannlegra mistaka sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir. Því hafði það ekkert með óheppni að gera að allt þetta fólk fórst í þessum hörmulega atburði.
Það sama má segja um öll atvik sem leiða til slysa á fólki og tjóna á eignum. Það er alltaf eitthvað sem einhver gerir eða gerir ekki, viljandi eða óviljandi sem er grunnorsökin. Ef við erum sammála um þetta og erum sannfærð um að við getum gert eitthvað í málunum þá eigum við góða möguleika á að fækka og að lokum útrýma slysum og tjónum, hvort sem það er í umferðinni, á heimilinu eða á vinnustaðnum. Tökum því eftir fyrirboðunum, sem oft eru augljósir, og bregðumst strax við – því reynslan sýnir að slysin gera alltaf boð á undan sér.
Höfundur er forvarnafulltrúi hjá VÍS
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Reynir Guðjónsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar